Öll fjölskyldan búsett í sömu götunni

Læknaneminn Magnea Guðríður er alin upp í Vogunum á Vatnsleysuströnd. Hún hefur alla tíð búið í bænum en er nú búsett á Stúdentagörðunum meðan á náminu stendur. „Ég er alin upp við að fjölskyldan er öll búsett í sömu götunni. Það er ólýsanlega gott að geta hoppað yfir í næsta hús í kaffi til ömmu og afa. Ég viðurkenni að það getur verið svolítið einmanalegt stundum að búa svona ein á Stúdentagörðunum á meðan náminu stendur, þegar maður er vanur svona góðu,“ segir hún.

Magnea segir náttúrufegurðina skipa stóran sess í hugum bæjarbúa. „Í Vogunum er fullt af leyndum perlum. Allt er í svo mikilli nálægt að það er nánast hægt að telja í örfáum skrefum fjarlægðina frá heimilinu og út í algjörar óbyggðir. Ein þessara perla er til dæmis skógræktarsvæðið við Háabjalla. Mamma hefur verið þar ásamt Skógræktarfélaginu að byggja upp huggulegan stað. Þetta er misgengi, svipað því sem er á Þingvöllum. Háir klettar og skjólsælt. Hrafnagjáin er líka frábær. Við vorum dugleg við að nýta okkur þetta þegar ég var yngri og fara saman í lautarferðir. Það er ómetanlegt að hafa svona í næsta umhverfi, að því ógleymdu hversu frábærlega umhverfið er notað í náttúrufræðikennslu í grunnskólanum.“

Magnea gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tók ákvörðun á lokaári sínu þar að verða læknir. „Ég sá fréttir um skort á heimilislæknum og ákvað að þarna væri eitthvað sem ég gæti gert og verið góð í. Þegar maður ákveður eitthvað svona þá bara gerir maður það og er ekki með neitt plan B. Maður einbeitir sér bara hundrað prósent að plani A,“ segir hún brött. „Ég ætla svo að snúa aftur í heimahagana að námi loknu og stefni á að nýta mér læknanámið á Suðurnesjunum, þar sem ég á heima.“ 

 

 

 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!