Mögnuð norðurljós á veturna og geggjað sólsetur á sumrin

Halldór Gísli Ólafsson úr Garði er sannarlega allt í öllu. Hann er nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, formaður ungmennaráðs og situr í stjórnum Björgunarsveitarinnar Ægis og knattspyrnufélagsins Víðis.

„Þú þekkir alla hérna og allt sem maður þarf í raun er svo nálægt. Ef svo vill til að maður þurfi að sækja eitthvað annað, er það hæfilega langt í burtu.  Við krakkarnir erum dugleg við að nýta okkur það og erum í góðu sambandi við krakka í öðrum bæjarfélögum hér í kring.“

Halldór hefur búið í Garði undanfarinn áratug og segir hann það hafa verið ákvörðun foreldra hans að setjast þar að. Hann sé hinsvegar hæstánægður með þá ákvörðun, enda sé nóg hægt að gera í bænum sé viljinn fyrir hendi.

„Við eigum gott knattspyrnulið, Víði. Ég er í stjórn félagsins og ég get sagt með sanni að það er mikil stemning í bæjarbúum fyrir liðinu. Það er reyndar svolítið þannig að stemningin ræðst mikið af gengi liðsins. Nú erum við í góðum gír svo nú er gaman,“ segir hann og brosir.

Halldór er vissulega ungur að árum en hefur þegar einsett sér að skjóta niður rótum í Garði og koma sér upp fjölskyldu í bænum þegar þar að kemur. „Það verður nú reyndar bara að segjast að hér býr gott fólk. Maður gleymir stundum þeim forréttindum að búa í svoleiðis samfélagi, rétt eins og maður gleymir stundum hvað maður er heppinn með þessi mögnuðu norðurljós hérna á veturna og geggjaða sólsetrið á sumrin.“ 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!