Hugguleg morgunstund í bílnum með kaffibolla og útvarpið

Súkkulaði frumkvöðullinn Sveinn Ólafur Lúðvíksson er borinn og barnfæddur í Vogunum, hvar hann nýtur sín vel.  Hann er mikill áhugamaður um íþróttir og sjálfur var hann býsna liðtækur sundmaður á yngri árum. Hann fagnar uppgangi íþróttamála í bænum geysilega.

„Ég fagna því sannarlega að sjá hvernig íþróttastarfið í bænum er að taka kipp. Þegar ég var að alast hér upp var mikið líf í íþróttamálum og ég var á bólakafi í sundinu, sem síðar skilaði mér í afrekshóp í íþróttinni. Það er gott að finna kraftinn magnast í þessu,“ segir hann.

Sveinn er einn fimm eigenda súkkulaðiframleiðslufyrirtækisins Sölva Chocolate. Hann er búsettur í Vogunum og keyrir til vinnu sinnar í Kópavogi, hvern einasta dag og jafnvel oftar enda í nægu að snúast.

 „Við erum hópur krakka af viðskiptabraut í Verzló sem tókum þátt í samkeppni ungra frumkvöðla,  Juni­or Achievement á Íslandi og unnum hana. Síðasta sumar fór svo í að vera í prógrammi hjá Startup Reykjavík og erum nú á fullu í framleiðslu á okkar eigin súkkulaði, sem hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur. Við erum komin í um tuttugu verslanir og höfum fengið boð um að fara utan með súkkulaðið. Við höfum í raun varla undan að fylla á í búðum.“

Þrátt fyrir ævintýrin í borginni séu heillandi sér hann enga ástæðu þess að flytja. „Ég er alinn upp við að keyra á milli svo mér finnst ekkert tiltökumál að bruna á milli. Fyrir mér er þetta hugguleg stund á morgnanna þar sem ég drekk kaffið mitt og hlusta á útvarpið. Ég sé ekki annað fyrir mér en að festa rætur hér með fjölskyldu þegar sá tími kemur. Hér hef ég allt, nálægðina við sjóinn og náttúruna, steinsnar frá höfuðborginni.“ 

 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!