Hentugt þegar maður nennir ekki að elda

Alexander Veigar Þórarinsson er grunnskólakennari í Grunnskóla Grindavíkur og lykilmaður í knattspyrnuliði Grindavíkur. Hann er umsjónakennari 10.bekkjar, sem heldur honum ekki síður á tánum í boltanum, því þegar illa gengur þarf hann að svara fyrir það á skólatíma og kann vel við aðhaldið.

„Hér er stutt í allt saman. Ég geng með strákinn minn í leikskólann og svo þaðan í vinnuna. Þetta tekur mig í heildina þrjár mínútur,“ segir hann og saknar ekki umferðarinnar í höfuðborginni þar sem hann bjó á meðan háskólanámi stóð. „Við kærastan mín erum bæði alin hér upp og þekkjum því mikið af fólki. Fjölskyldur okkar beggja eru hér og vinirnir. Það er mjög hentugt upp á að fá pössun, nú eða ef maður nennir einfaldlega ekki að elda,“ segir hann og skellir uppúr.

Alex segir því borðleggjandi fyrir ungu fjölskylduna að skjóta rótum í Grindavík, þó svo að ekki sé kvikmyndahúsum og leikhúsum fyrir að fara í bænum. „Það er nefnilega dálítið skemmtilegt að þegar við sækjum svo í slíkt, verður yfirleitt mikið meira úr ferðinni fyrir vikið,“ segir hann og bendir á að auk þess hafi Grindvíkingar úr nægu að moða með Bláa lónið nánast í bakgarðinum og fjöruna sem umlykur allt. Fjölskyldan sé dugleg að nýta sér fallegu fjöruna sem umlykur bæinn. „Hér er bara allt það sem við þurfum!“ 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!