Afar lukkuleg með uppbygginguna á svæðinu

„Að vera með sorgarrendur undir nöglunum er mér jafn eðlislægt og vera hlaupandi um fjöll og firnindi, ómissandi partur af lífinu mínu. Það má segja að ég hafi verið sett á hestbak áður en ég fór að ganga, faðir minn og kona hans eiga hesthús hérna á Mánagrund sem er í fimm mínútna fjarlægð frá heimili mínu. Ég myndi hvergi annarstaðar vilja vera en hér á Reykjanesinu. Áhugamálin mín spila þar stóran þátt en mér líður einmitt hvergi eins vel og í skítagallanum að huga um hestana mína-  eða jú mögulega þegar ég er einhverstaðar upp á felli hlaupandi um í náttúrunni."

Ólöf Steinunn er fæddur og uppalinn Keflvíkingur og að eigin sögn sjálfskipuð talskona Reykjanessins. Hún er afar lukkuleg með uppbygginguna sem orðið hefur á svæðinu og breytinguna sem því hefur fylgt.

 „Að alast upp í Keflavík voru forréttindi, ég var það heppin að hafa allt það sem ég þurfti í göngufjarlægð, fjölskylduna, skólann, tómstundir og svo móann, sem var aðal leiksvæðið okkar þegar við vorum yngri. Sonur minn er fær að njóta sömu fríðinda og í raun koma ekkert annað til greina en að ala hann upp hér líka. Ég er í krefjandi vinnu og hef tækifæri á því vegna þess hve stutt er í allt hérna, það er ekkert mál fyrir mig að stökkva til ef guttinn minn þarf á mér að halda," segir hún og heldur áfram; „Ég vinn í viðskiptadeild Isavia á Keflavíkurflugvelli en þar slær aldrei slöku við. Með ört vaxandi fjölda ferðamanna þá fylgir fjöldinn allur af krefjandi og skemmtilegum verkefnum sem við fáumst við alla daga. Meira lifandi vinnustað er erfitt að finna.”


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!