Yndislegt að fá að alast upp við leik í móanum

Thelma Guðlaug kennir 1. bekk í Grunnskóla Sandgerðis. Hún þekkir vel að vera barn í Sandgerði, enda fædd þar og uppalin. „Það er dásamlegt að vera barn hérna. Að fá að alast upp við að geta verið úti að leika, farið þangað sem mann langaði en samt alltaf verið nálægt því að vera heima. Maður lék sér í móanum og fjörunni, fann skrítna hluti og lét hugmyndaflugið taka völdin. Við lékum okkur úti allan daginn og minningarnar eru óteljandi. Það er æðislegt að fá að alast svona upp,“ segir Thelma.  Sjálf er Thelma móðir tveggja ára gamals drengs og segir hún það öryggi sem hún ólst upp við sem barn í Sandgerði, heilla hana sem foreldri.

„Krakkarnir hérna eru ofboðslega samstíga og getur verið að smæðin hafi þau áhrif. Þetta var svona þegar ég var barn og ég finn þetta sem kennari. Bekkirnir eru mikið minni en á mörgum öðrum stöðum. Krakkarnir eru duglegir við að nýta sér sundlaugina hérna, enda dásamleg.  Svo hafa þau félagsmiðstöðina Skýjaborg þar sem þau hittast og spila og svoleiðis.“

Thelma segir Sandgerði einstaklega álitlegan kost þeirra sem kjósa bíllausan lífsstíl. „ Það tekur um sjö mínútur að labba bæinn endilangan. Samgöngukerfið er líka mjög gott svo það er ekkert mál að fara milli.“

Thelma á tvíburasysturina Ósk og saman starfa þær í grunnskólanum. „Það er dálítið skemmtilegt að segja frá því að í skólanum eru auk okkar sex önnur tvíburapör,“ segir hún og hlær. „Við þekkjum lítið annað, enda var þetta svona þegar við vorum sjálfar í grunnskóla. Ég veit ekki til þess að nokkur skóli sé betur settur í fjölburum en við,“ segir hún að lokum. 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!