Veröldin aðeins einfaldari hér

 

„Þegar við fluttum heim eftir ársdvöl erlendis og framtíðin var í raun óskrifað blað, völdum við að flytja aftur í Garðinn fyrir fjölskylduna. Ég er alin upp í Garði. Þar er umhverfið sem ég nýt mest, þess andrýmisins í náttúrunni sem ég kemst í án þess að þurfa að keyra þangað. Að geta rölt út á Garðskaga, gengið eftir kambinum og  notið þess hve vítt er til fjalla. Hér er einhver ótrúlega sérstök orka sem ég sækist í,“ segir Særún Rósa, þriggja barna móðir og verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunnar á Suðurnesjunum.

Hún segir gott að tilheyra samfélagi hvar allir þekkja alla og samhugurinn sé sterkur. „ Samfélagið er gott. Börnin mín hafa myndað sterka tengingu við svæðið og finna til öryggis hérna. Leikskólinn Gefnarborg er líka ein ástæða þess að ég hef valið að búa í Garði,“ bendir hún á og heldur áfram: „Hann er umhverfisvænn og þar er unnið faglegt, kærleiksríkt og gott starf.“ Þá nefnir hún tónlistarskólann í bænum og undirstrikar hversu frábær hann er auk þess sem grunnskólinn sæki sífellt í sig veðrið gegnum tónlist og sköpun. 

Fótboltamömmurnar eru ein af þungamiðjum samfélagsins í Garði líkt og víða annars staðar. „Það er svo gott að geta reitt sig á þær, það eru þessi praktísku hlutir sem skipta miklu máli.“

Særún Rósa segir ýmislegt skemmtilegt gerast í bænum en það sé undir íbúunum sjálfum komið að framkvæma það sem þá langar hverju sinni. „Fólk stendur fyrir tónleikum í kirkjunni, opnar veitingastað, heldur flóamarkað og bæjarhátíð. En hér er líka rólegt um að litast og þau rólegheit eru kostur. Hér er einfaldlega ekkert stress. Veröldin okkar hér er bara aðeins einfaldari.“ 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!