Samstaðan er stærsti kosturinn

„Ég er fæddur og uppalinn Grindvíkingur. Konan mín líka. Það kom ekkert annað til greina en að börnin okkar yrðu það líka. Skólakerfið, íþróttamálin og í raun öll opinber þjónusta er hér til fyrirmyndar að mínu mati,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, sem að eigin sögn er afskaplega stoltur Grindvíkingur. Otti var útnefndur Grindvíkingur ársins árið 2013 vegna starfa sinna fyrir björgunarsveitina Þorbjörn sem starfrækt er í Grindavík. Hann segir björgunarsveitina eiga afbragðsgott bakland í bæjarbúum sem standi þétt saman.

 „Það er þessi samstaða í samfélaginu sem mér finnst vera einn stærsti kosturinn við að búa hérna. Það er ósköp einfalt. Þetta er bara eitt samfélag sem hefur haldist eins og það var hérna áður fyrr, þegar færri fjölskyldur bjuggu á svæðinu. Nándin og samheldnin hefur ekkert breyst þó svo íbúum hafi fjölgað.“

 Otti segir samstöðuna taka á sig hinar ýmsu birtingarmyndir. „Við komumst til dæmis nokkuð óvænt alla leið í úrslitarimmuna í körfuboltanum í vor. Það stóð ekki á bæjarbúum, sem allir mættu á pallana, hvort sem fólk hafði áhuga á íþróttinni eða ekki. Báðir leikskólarnir í bænum blésu til þemadags í tilefni þessa þar sem gulur, litur okkar grindvíkinga, var þemaliturinn. Fyrir okkur í björgunarsveitinni hefur þessi samhugur mikla þýðingu, því okkur er sýndur mikill skilningur og okkur gengur alltaf vel að safna fyrir því sem okkur vantar. Fólk er alltaf til í að styðja við okkur þegar við leitum eftir því. Það er alls ekki sjálfgefið.“


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!