Vilja reisa sundlaugargarð með diskókúlu

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur ásamt nemendum 3. bekkjar.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur ásamt nemendum 3. bekkjar.

Eftir fund með bæjarstjóranum í Grindavík unnu nemendur í 3. bekk verkefni þar sem þau lögðu drög að draumabænum. Nemendurnir vilja meðal annars fá sundlaugargarð með diskókúlu, bíó og dýragarð.

Nemendur í 3. bekk í grunnskólanum í Grindavík kynntu verkefnið Draumabærinn fyrir Róberti Ragnarssyni, bæjarstjóra, fyrir skömmu. Nemendurnir lögðust í mikla hugmyndavinnu í kringum verkefnið og reistu sinn eigin bæ sem gefur glögga mynd af þeirri framtíðarsýn sem nemendurnir hafa af Grindavík. Samhliða unnu nemendurnir tíu mínútna stuttmynd um verkefnið.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar bæjarstjórinn tók á móti nemendunum og ræddi við þá um ýmislegt er tengist bænum. Nemendurnir höfðu mikinn áhuga á bæjarmálunum og gengu hart að bæjarstjóranum. Þau spurðu meðal annars út í hvers vegna ætti að stækka íþróttahúsið aftur en ekki skólann sem sé orðinn svolítið lítill fyrir þau öll og hvenær þau fengju innisundlaug og stærri rennibraut.

Kennararnir urðu yfir sig hrifnir af áhuga nemendanna á bæjarmálum og eftir að hafa farið vel yfir málið ákváðu þeir að láta nemendur vinna áfram með hugmyndir sínar. Vinnan féll auk þess vel að aðalnámskrá því nemendur unnu með sköpun, sjálfbærni, læsi og lýðræði. Lagt var upp með hugmyndina Hvernig getur Grindavík orðið enn betri bær?

Nemendur lögðust í mikla hugmyndavinnu og ræddu að sjálfsögðu hvaða lágmarksþjónusta þyrfti að vera í bænum, meðal annars skóli, leikskóli, heilsugæsla og lögreglustöð. Þegar búið var að skilgreina alla nauðsynlega þjónustu var hugmyndafluginu gefinn laus taumurinn og meðal þess sem nemendurnir vilja hafa í bænum eru skyndibitastaðir, sundlaugargarður með diskóljósum, bíó og dýragarður. Nemendur kusu svo á milli hugmynda og þannig var ákveðið hvaða þjónusta skyldi vera í Draumabænum.

Nemendur nýttu ýmsar umbúðir sem til féllu á heimilum þeirra við að smíða bæinn og kynntu síðan afraksturinn á árshátíð skólans. Róberti var boðið til að kynna sér Draumabæinn og munu hugmyndir nemenda án efa nýtast bæjarstjóranum í starfi. 

Verkefninu voru svo gerð afar góð skil í stuttmynd og hnyttnum söng eftir grindvískt skáld en þar er meðal annars sungið til Róberts:

Róbert, hlustaðu á mig og ekki dotta
Gerum nú Grindavík rosa flotta!


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!