Ljósanótt í Reykjanesbæ 1. - 4. sept.

Einn af hápunktum Ljósanæturhátíðar í ár eru stórtónleikar Magnúsar Kjartanssonar og ljóssins engla á hátíðarsviðinu á laugardagskvöld. Með Magnúsi verða Björgvin Halldórsson, Gunnar Þórðarson og Stefanía Svavarsdóttir. Einnig koma fram Stórsveit Suðurnesja, Jóhanna Ruth og Páll Óskar. Í lok tónleika á hátíðarsviði lýsir HS Orka upp Ljósanótt með glæsilegri flugeldasýningu á Berginu í umsjón Björgunarsveitarinnar Suðurnes.

Með stærri tónlistarviðburðum er tónlistarsýningin Með blik í auga sem nú er haldin í 6. sinn í Andrews leikhúsinu á Ásbrú. Yfirskrift sýningarinnar er „Hvernig ertu í kántrýinu?“ og verður kántrýtónlist efniviður hennar, í tónum, máli og myndum. Flytjendur eru Björgvin Halldórsson, Eyjólfur Kristjánsson, Jóhanna Guðrún og Stefanía Svavarsdóttir ásamt stórhljómsveit Arnórs Vilbergssonar. Textahöfundur er Kristján Jóhannsson.

 

Blöðrum sleppt í setningarathöfn

„Að venju eru það heimamenn sem eru í öllum helstu hlutverkum, í tónlistinni, myndlistinni og öðrum smærri viðburðum. Heimatónleikarnir sem lukkuðust svo vel í fyrra verða á sínum stað í elsta hluta bæjarins þar sem íbúar bjóða gestum heim og einnig hjólbörutónleikar í Keflavíkurkirkju. Fjölmargar listsýningar verða í gangi og í Duus Safnahúsum verða opnaðar fjórar nýjar  og fjölbreyttar sýningar listafólks sem allt tengist Reykjanesbæ og Suðurnesjum með einhverjum hætti. Þær sýningar opnum við á fimmtudeginum. Þá halda Hafnabúar enn og aftur menningarhátíð á lokadegi Ljósanæturhátíðar, m.a. með tónleikum Valdimars í Kirkjuvogskirkju og ljósmyndasýningu í Skólanum.“

Ljósanæturhátíðin verður að venju sett við Myllubakkaskóla fimmtudaginn 1. sepember kl. 10:30. Leik- og grunnskólabörn verða þar í aðalhlutverki eins og endranær en setningarathöfnin verður með nýju sniði í ár. „Það er alltaf hátíðleg stund þegar Ljósanótt er sett og við fögnum því með söng og annarri skemmtan. Ekki verður litið til himins til að horfa á eftir blöðrum heldur mun fallegi skrúðgarðinn okkar spila stærra hlutverk í setningarathöfninni."

 

Viðburðir á vef Ljósanætur

Að lokinni setningarathöfn mun hver viðburðurinn reka annan og er tekið við skráningum nýrra viðburða á vef Ljósanætur, ljosanott.is. Yfir 50 list- og handverkssýningar verða í gangi og á annað hundrað viðburða af ýmsu tagi, þar af á þriðja tug tónlistarviðburða. Af öðrum dagskrárliðum má nefna sagnakvöld eldri borgara á Nesvöllum, Árgangagönguna þar sem 50 ára árgangurinn verður í aðalhlutverki og heldur hátíðarræðu á stóra sviðinu á laugardag, Skessuna sem tekur á móti gestum og býður í lummur, hönnunarveislu á Park Inn hótelinu, kjötsúpu Skólamatar fyrir alla, sögugöngu, hópakstur bifhjóla og fornbíla og Bæjarstjórnarband á Bryggjuballi og ótal margt fleira. Hægt er að nálgast dagskrána á vef Ljósanætur, http://ljosanott.is.


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!