Gönguleiðir á Reykjanesi í Wappið

Leiðarlýsingar fyrir gönguleiðir um Gígsleið og Hraunahringinn á Reykjanesi eru nú fáanlegar í Wappinu, íslensku gönguappi með leiðarlýsingum sem Einar Skúlason hefur þróað. Báðar leiðirnar liggja um einstakt svæði á heimsvísu þar sem úthafshryggur kemur að landi. Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, vann að gerð þeirra með stuðningi frá Reykjanes UNESCO Global Geopark. Báðar leiðirnar eru stikaðar og því er auðvelt að fylgjast með bæði í símanum sem og að ganga þær.

Hraunahringurinn er 7 km gönguleið um suðvestasta hluta Íslands þar sem Mið-Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Gengið er frá bílastæði við Reykjanesvita um misgengi á mörkum Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, að vitanum á Skemmum, yfir Skálafell og að Gunnuhver áður en haldið er til baka að bílastæðinu við Reykjanesvita. Á Gígsleið er gengnir um 3,5 km um Háleyjabungu, sem er lítil flöt dyngja með stórum, hringlaga gíg sem er um 20-25 m djúpur. Hraunin eru úr afbrigði af basalti sem nefnist píkrít. Leiðin liggur yfir yngri hraun, einkum úr Skálafelli, að stóru misgengi og þaðan efst upp á dyngjuna.

Fleiri gönguleiðir um Reykjanesið munu bætast við í Wappinu á næstunni að sögn Einars Skúlasonar. Wappið er í samstarfi við Neyðarlínuna og hægt er að nota það með og án gagnasambands en notendur geta hlaðið niður gönguleiðum áður en haldið er í göngu þar netsamband er stopult eða ekkert. Hægt er að hlaða appinu niður ókeypis í App Store og Google Play.


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!