Ást við fyrstu sýn

„Ég held að heimurinn sé að verða svo erilsamur og stór. Fólk er uppfullt af streitu og þarf að læra…
„Ég held að heimurinn sé að verða svo erilsamur og stór. Fólk er uppfullt af streitu og þarf að læra að slaka á og tengjast því sem virkilega skiptir máli. Þannig tel ég að fleiri eigi eftir að horfa til Íslands sem griðarstaðs þar sem hægt er að aftengjast. Þess vegna finnst mér Reykjanesið vera heillandi staður því hann hefur upp á allt þetta að bjóða.“

Hin þýska Linda Bergmann er yfir sig ástfangin af Íslandi. Linda býr ásamt Einari manni sínum í Njarðvík þar sem hún nýtur rólyndislífs og nálægðar við náttúru. Linda og Caro, besta vinkona hennar, kynntust íslenskum mönnum sínum einmitt á sama barnum með nokkra vikna millibili þegar þær dvöldu á Íslandi sumarlangt. Hún heldur úti vinsælli bloggsíðu (Dear Heima) og er virk á Instagram þar sem hún mærir Reykjanesið ótt og títt.

Linda segist hafa heyrt af Íslandi áður en hún kom hingað en landið var þó ekki á radarnum hjá henni ef svo má segja. Hún er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Sigurrós og þegar þeir gáfu út myndina Heima þá gaf hún foreldrum sínum hana í jólagjöf. „Við horfðum á myndina og hugsuðum: Hvaða staður er þetta? Við verðum að fara þangað.“

Linda sem er fædd og uppalin í Hannover kom svo fyrst hingað til lands árið 2012 í stutta ferð. „Ég vildi ekki fara héðan aftur. Það er hálf vandræðalegt og klisjukennt að segja frá því en þetta er bara sannleikurinn. Ég féll í stafi yfir fegurð landsins.“ Eftir að hún kom aftur til Þýskalands skrifaði hún mikið um ágæti Íslands á bloggsíðu sinni. Það varð svo til þess að henni var boðið aftur til Íslands í fjölmiðlaferð ásamt Caro sem bloggaði með henni auk þess sem þær ráku saman verslun. „Við áttum algjört töfraaugnablik í þeirri ferð þegar við stóðum uppi á Langjökli í fallegu veðri. Við ákváðum að hérna yrðum við að prófa að búa, fá reynslu heimamanna beint í æð.“

Stórborgarlífið lýjandi og leiðinlegt

Þær vinkonur bjuggu þá í Köln og þótti stórborgarlífið orðið lýjandi og  leiðinlegt. Þá hófst söfnun fyrir Íslandsdvöl og þær stöllur fluttu aftur í foreldrahús og létu sig dreyma um lífið á Íslandi. „Við komum hingað um vor 2015 og fluttum í bílskúr sem við héldum að væri lítil íbúð, það reyndist þó skúr sem okkur líkaði bara vel við,“ segir Linda og hlær. Eftir að Caro kynntist Loga sínum í fyrstu vikunni voru þau þrjú á stanslausri ferð um landið. „Með hverjum deginum sem leið varð ég staðráðin í því að þetta væri staðurinn sem mér væri ætlaður,“ segir Linda og ætla má að örlagadísirnar hafi verið sama sinnis. Hún kynnist Einari í síðustu viku dvalarinnar og örlögin gripu þannig í taumana og breyttu öllu. Linda flakkaði á milli Íslands og Þýskalands eftir að sumardvölinni lauk. Hún flutti svo endanlega til Íslands og hefur hún því verið hérna í nærri fjögur ár. „Ég sé ekki eftir neinu og langar aldrei að fara aftur til baka. Fólk hefur sagt við mig að einn daginn muni ég vakna við það að lífið sé orðið hversdagslegt, það hefur ekki gerst og ég er ennþá ástfangin af Íslandi.“

Sagan af því hvernig þær vinkonur fundu ástina á Íslandi þykir það áhugaverð að ein stærsta sjónvarpsstöð Þýskalands gerði sér ferð hingað til að taka hús á turtildúfunum. Eins hafði stærsta útvarpsstöð Þýskalands samband og vildi fá að heyra allt af létta. 

Þær Linda og Caro fóru að fá áhuga á því að skrifa aftur eftir að þær settust hér að og deila reynslu sinni frá lífinu á Íslandi, þannig að úr varð bloggið Dear heima. Þar fjalla þær um íslenska náttúru, ferðalög og allt milli himins og jarðar sem þeim er hugleikið. Nú sér Linda ein um að skrifa á síðuna sem er uppfull af fróðlegu efni. Hún er augljóslega ástríðufull þegar kemur að Íslandi sem lýsir sér í þeim ítarlegu upplýsingum sem finna má á síðunni og fallegum myndunum sem teknar eru um land allt. Þjóðverjar eru í meirihluta fylgjenda Lindu en Bandaríkjamenn og Íslendingar eru ekki langt þar undan. Hún segir þá þýsku vera duglega að hafa samband við hana og kommenta á færslur hennar. Linda er frekar persónuleg á bloggi sínu og fólki virðist líka það vel.

 „Ég hélt að bloggið væri dautt. En ég er að sjá að það er ennþá á lífi og fer jafnvel vaxandi.“ Linda leggur mikið upp úr útliti á miðlum sínum og metnaðurinn skín í gegn þegar maður skoðar síðurnar. Um hundrað þúsund gestir heimsóttu bloggið á mánuði þegar mest lét en núna er Instagram-síðan líka sífellt að verða vinsælli en þar fylgjast rúmlega þrettán þúsund manns með ævintýrum Lindu á Íslandi.

Margir fallegir staðir á Reykjanesi

Linda og Einar maður hennar fjárfestu í íbúð í Ytri-Njarðvík og þar líkar þeim lífið. En af hverju hér í Reykjanesbæ?

„Mér líkar ákaflega vel við Reykjanesið og finnst það yndislega fallegt svæði. Við fundum svo íbúð hérna sem okkur þótti frábær og ákváðum þá að flytja.“ Áður höfðu þau skoðað hús við sjávarsíðuna í Suðurnesjabæ sem þau voru nálægt að kaupa en Lindu dreymir um að eignast athvarf í sveitasælu á Íslandi.

„Það er svo friðsælt hérna á Reykjanesi og afskekkt á einhvern hátt. Mér finnst það hálf sorglegt að fólk skuli nánast bara heimsækja Bláa lónið og svo fara héðan. Það eru svo margir fallegir staðir að sjá hérna. Hér er gott að ljósmynda, sem mér finnst að fólk gæti nýtt betur þar sem allir eru uppteknir af því að ná góðum myndum á Instagram hjá sér,“ segir Linda. Hún segist ekki spennt fyrir þeim ferðamannastöðum hérlendis sem eru hvað vinsælastir sökum fjölmennis.

„Ég hef verið spurð svo oft: „Af hverju Ísland?“ Ég næ ekki auðveldlega að koma því í orð. Þegar ég kom hingað vissi ég bara að ég var komin heim. Margir sem ég ræði við og hafa komið hingað nefna að landið sé rólegt og veiti fólki ákveðna hugarró.“ Linda er sammála því og hefur breytt miklu í sínu lífi frá því að hún flutti frá amstri stórborga í Þýskalandi. Hún er mun umhverfisvænni núna og hugsar ekki eins mikið um peninga og eignir. „Ég spái í því hvað gerir mig raunverulega hamingjusama, hvað ég vil virkilega. Hvernig samskipti vil ég eiga við fólk?“ Nýlega fór hún að nema næringarfræði og hefur hún umturnað sínu eigin mataræði. Hún borðar ekki sykur, er vegan og hefur aldrei liðið betur.

Linda segir að við Íslendingar tökum því oft sem sjálfsögðum hlut að hafa stutt í náttúruna og hafið. Svo ekki sé minnst á allt plássið sem við höfum. „Loftið hérna er líka svo hreint að í hvert skipti þegar ég fer til Þýskalands þá svimar mig hreinlega fyrstu dagana vegna þess hve munurinn er mikill.“ Linda er því dugleg að benda manninum sínum á það fallega í náttúrunni og dregur hann út um allar trissur til þess að njóta útivistar. Hann, eins og svo margir Íslendingar, sér ekki allt sem við eigum hér á meðan þeir sem alast upp í öðru umhverfi sjá hvað Ísland er einstakt.

„Ég held að heimurinn sé að verða svo erilsamur og stór. Fólk er uppfullt af streitu og þarf að læra að slaka á og tengjast því sem virkilega skiptir máli. Aldrei hafa t.d. verið skrifaðar fleiri sjálfshjálparbækur en núna. Þannig tel ég að fleiri eigi eftir að horfa til Íslands sem griðarstaðs þar sem hægt er að aftengjast. Þess vegna finnst mér Reykjanesið vera heillandi staður því hann hefur upp á allt þetta að bjóða.“„Það er svo friðsælt hérna á Reykjanesi og afskekkt á einhvern hátt. Mér finnst það hálf sorglegt að fólk skuli nánast bara heimsækja Bláa lónið og svo fara héðan. Það eru svo margir fallegir staðir að sjá hérna.

 

 

 

 

 

 

 

 


Fylgstu með okkur á Facebook

Góðar sögur er líka að finna á Facebook síðu verkefnisins.

Á hverjum degi er eitthvað nýtt og spennandi að frétta á Facebook síðu verkefnis. Kíktu endilega við!